Þorlákshöfn verður ekki varahöfn fyrir Herjólf þegar ekki er fært milli Vestmannaeyja og nýju hafnarinnar í Bakkafjöru. Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Áka Ragnarsson, bæjarstjóra í Ölfusi, í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.
„Við erum með mjög verðmætt og eftirsótt svæði á hafnarsvæðinu og það er á hreinu að það verður ekki varasvæði fyrir Herjólf. Þetta er allt of verðmætt svæði til þess að það standi autt og sé notað í undantekningartilfellum," segir Ólafur Áki.
„Það hefur enginn rætt við okkur um breytingar á rekstri Herjólfs eða að breytingar verði á Þorlákshöfn sem ferjuhöfn. Það er mjög sérstakt í öllu þessu ferli að samgönguráðuneyti eða Vegagerðin ræði þessi mál ekki við okkur. Það eru tvö ár í það að Landeyjahöfn opni og einu fréttirnar sem við fáum af þessu máli eru úr fjölmiðlum," segir Ólafur jafnframt.
Í frétt Sunnlenska segir að athafnasvæði Herjólfs í Þorlákshöfn er stórt en þar er sérsmíðaður hafnarkantur fyrir bílaferju, aðstöðuhús og stórt bílastæði. Ólafur segir að ef Herjólfur fari hafi sveitarfélagið fjölmarga kosti í nýtingu á þessu svæði, enda sé það eftirsótt.
„Þetta er kannski lýsandi fyrir alla ákvarðanatökuna í þessu máli. Það er aldrei rætt við okkur eða skoðað með nýtt skip heldur er þetta einhliða ákvörðun samgönguyfirvalda." Ólafur segir sveitarfélagið hafa kynnt málið fyrir þingmönnum kjördæmisins á fundi í febrúar. „Við ræddum þetta þar og lýstum því yfir að okkur þætti þetta vægt til orða tekið mjög sérstök vinnubrögð," segir Ólafur að lokum.