Sjaldan hafa verið fleiri samankomnir í íþróttahöllinni á Húsavík heldur en í dag þegar hátíðardagskrá í tilefni 1. maí fór fram en þ.ar var m.a. formlega gengið frá stofnun Framsýnar-stéttarfélags í Þingeyjarsýslu.
Félagið varð til með sameiningu Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verslunarmannafélags Húsavíkur og undirrituðu Aðalsteinn Árni Baldursson formaður VHN og Snæbjörn Sigurðsson formaður VH undir stofnsamning hins nýja félags.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti Alþýðusambands Íslands, flutti hátíðarræðuna og Jóhannes Kristjánsson eftirherma sá um að grínið væri ekki undanskilið.
Þá var boðið upp á veglega tónlistardagskrá, Guðni Bragason frumflutti nýtt lag sem hann samdi við texta Harðar Þórs Benónýssonar og er tileinkað stofnun framsýnar stéttarfélags. Söngfélagið Sálubót söng nokkur vinsæl lög undir stjórn Jaan Alavere, Birgitta Haukdal, Vignir Snær Vignisson og Magni Ásgeirsson sungu og fluttu nokkur lög auk þess sem húsvískir tónlistarmenn fluttu nokkur lög frá sjötta áratugnum undir stjórn Guðna Bragasonar.