Viðræður á LSH í næstu viku

Hjúkrunafræðingar skoða samningsdrög í vikunni.
Hjúkrunafræðingar skoða samningsdrög í vikunni. mbl.is/Frikki

Líklegt er að vinnuhópur um útfærslu á vaktavinnuskipulagi skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga á Landspítala (LSH) taki til starfa í næstu viku, að sögn Björns Zoëga, annars tveggja starfandi forstjóra Landspítalans. Heilbrigðisráðherra á m.a. eftir að skipa oddamann og eins þurfa málsaðilar tíma til að skoða málin. Ákvörðun um stofnun vinnuhópsins kom fram í yfirlýsingu forstjóra LSH í fyrrakvöld.

„Við ætlum ekki að gefa okkur neitt fyrirfram. Við ætlum að ganga að þessu með opnum huga,“ sagði Elín Ýrr Halldórsdóttir, talsmaður skurðhjúkrunarfræðinga.

Fulltrúar skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga komu tvívegis til fundar í heilbrigðisráðuneytinu í fyrradag og sat Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra báða fundina.

Björn Zoëga sagði að skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar hefðu lagt til að vinnuhópurinn ætti að starfa til áramóta og gefa heilbrigðisráðherra reglulega skýrslu um gang mála.

Elín Ýrr sagði hjúkrunarfræðinga vilja stefna að því að ná sameiginlegri niðurstöðu. Hún vildi árétta að þessi deila hefði ekki snúist um kjör og ekki verið minnst á launamál, enda væru þau í öðrum farvegi.

„Við gengum út vegna þess að við töldum að það væri verið að ógna öryggi sjúklinga með þessu vaktafyrirkomulagi og að það yki álagið á okkur og hefði þau áhrif að launin okkar lækkuðu. Það sem segir í þessari yfirlýsingu [forstjóra LSH] er það sem teljum þurfa til að koma í veg fyrir að við lendum í þessari aðstöðu og að þjónusta við sjúklinga sé skert,“ sagði Elín Ýrr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert