Stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni á lokastigi

Grímseyjarferjan Sæfari er byrjuð að sigla milli Grímseyjar og Dalvíkur.
Grímseyjarferjan Sæfari er byrjuð að sigla milli Grímseyjar og Dalvíkur. mbl.is/RAX

Stjórnsýsluúttekt, sem samgönguráðherra óskaði sl. haust eftir að Ríkisendurskoðun gerði á Vegagerð ríkisins, stendur enn yfir en niðurstöðu er að vænta á næstu dögum.

Segir samgönguráðherra, að í kjölfar niðurstöðunnar munu ráðuneytið og Vegagerðin vinna í sameiningu að því að færa mál til betri vegar svo að Grímseyjarferjuævintýrið endurtaki sig ekki. Vegamálastjóri hafi sagst taka aðfinnslur Ríkisendurskoðunar mjög alvarlega og að farið verði ofan í hvað betur megi gera í framtíðinni því að ekki sé hægt að breyta því sem hafi verið gert í fortíðinni. 

Þetta kemur fram í svari Kristjáns L. Möllers, samgönguráðherra, við fyrirspurn Bjarna Harðarsonar, alþingismanns, á Alþingi. Bjarni spurði um hvernig tekið hafi verið á brotum á verklagsreglum ráðuneytisins, sem urðu í tengslum við endurbætur á nýrri Grímseyjarferju.

Í svarinu segir, að ráðuneytið komi sjaldnast að undirbúningi og framkvæmd verkefna sem séu á verksviði stofnana þess, enda séu stofnanir ráðuneytisins öflugar með mikla sjálfstjórn og vel til þess fallnar að stýra verkefnum. Það sé þó alkunna að margt fór á annan veg en ætlað var varðandi Grímseyjarferju.

„Þegar málefni Grímseyjarferju voru komin inn á borð ráðuneytisins og blikur á lofti hvert stefndi var full ástæða til þess að skilgreina verkefnið eins og kveðið er á um í verklagsreglu ráðuneytisins. Það var ekki gert og því fékk málið ekki þá athygli sem það ella hefði fengið. Til að bregðast við þessu og til að undirbúa starfsmenn fyrir aukin umsvif vegna nýrra málaflokka, sveitarstjórnarmála og málefna Keflavíkurflugvallar, fékk ráðuneytið ráðgjafafyrirtækið Capacent til liðs við sig haustið 2007.

Markmið ráðuneytisins er að samþætta betur stefnumótun og áætlanagerð og gera verklag vandaðra og skilvirkara. Frá síðastliðnu hausti hafa starfsmenn ráðuneytisins unnið að þessu markmiði. Allir starfsmenn ráðuneytisins hafa lagt sitt af mörkum. Stefnt er að því að vinnan klárist í maí nk. og standa vonir til að hún skili sér í betri árangri í störfum ráðuneytisins," segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka