Hreinsun olíubrákar í Elliðavogi við ósa Elliðaáa í Reykjavík gengur ágætlega, en verkið er tímafrekt að sögn fulltrúa slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.Talið er að 300 til 600 lítrar af svartolíu hafi farið í sjóinn úr flutningaskipinu í Sundahöfn í gærmorgun, en við hreinsistarfið í gær var notuð gömul olíuþró, m.a. til að hreinsa verkfæri og búnað slökkviliðsins, og mun hún hafa yfirfyllst í nótt vegna mikillar úrkomu. Hreinsiefni og olía fór við það í sjóinn og hafði olíubrákin borist í átt að Elliðaárósum.
Ekki er talið að lífríki Elliðaánna sé í hættu vegna þessarar mengunar, en slökkviliðið er þrátt fyrir það með talsverðan viðbúnað. 15 til 20 manns eru þar með tvo slöngubáta, tækjabíla og flotgirðingargáma og var flotgirðing strengd yfir voginn.