Hreinsunarstarf í Elliðavogi hefur gengið vel og búið er að hreinsa alla olíu sem fór í Elliðaárnar, að sögn Höskuldar Einarssonar, deildarstjóra mengunarvarna SHS. Svartolía og hreinsiefni, sem notað var til að hreinsa svartolíuflekk í Sundahöfn í gær, fór í sjóinn í morgun. Gömul olíuþró á Gelgjutanga var notuð við hreinsistarfið í gær, m.a. til að hreinsa verkfæri og búnað slökkviliðsins. Þróin yfirfylltist í nótt vegna mikillar úrkomu og fóru hreinsiefnið og olía í sjóinn.
„Þetta er allt að mjakast, við erum búnir að ná mestu sem fór í sjóinn í morgun, það er smávegis olíubrák eftir í smábátahöfninni og við erum að vinna í því að hreinsa hana upp, við erum búnir að ná öllu upp og hreinsa sem fór í Elliðaárnar, en það var minniháttar," segir Höskuldur.
Höskuldur segir að hreinsunarstarfið taki sinn tíma og á von á því aðgerðirnar taki að minnsta kosti 4 tíma í viðbót. „Þetta er hægvirkt og tekur sinn tíma, við erum sérstakar flotgirðingar sem sjúga í sig olíu og við drögum þær um höfnina og fyrir hafnarkjaftinn, það er að fjara út núna og við ætlum að loka hafnarkjaftinum, en öll olía sem er þar inni myndi annars streyma út en við lokunina lendir hún þá á svokölluðum „pulsum" sem soga olíuna í sig," segir Höskuldur.