Annað olíuútkall

00:00
00:00

Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins þarf betri aðstöðu til að þrífa búnað sinn eft­ir olíu­hreins­un­ar­starf. Þetta er sam­dóma álit Hösk­uld­ar Ein­ars­son­ar, deild­ar­stjóra meng­un­ar­varna Slökkviliðs höfuðborg­ar­svæðis­ins, og Jóns Viðars Matth­ías­son­ar slökkviliðsstjóra.

Slökkviliðið stóð í fyrra­dag í miklu hreins­un­ar­starfi í Sunda­höfn í kjöl­far svartolíuleka en að starf­inu loknu var hreinsi­búnaður­inn flutt­ur á plan hjá Gelgju­tanga þar sem hann var þrif­inn. Þar er til staðar þró sem var notuð til að taka á móti ol­í­unni sem þakti búnaðinn sem og efn­un­um sem voru notuð við hreins­un­ina. Að sögn Hösk­uld­ar fyllt­ist þróin því sem næst en í kjöl­far rign­ing­ar um nótt­ina yf­ir­fyllt­ist hún og olí­an og hreinsi­efn­in dreifðu sér um Snar­fara­höfn. Þá komust efn­in neðst í Elliðaárn­ar og að Bryggju­hverf­inu.

Þar sem olí­an var þynnri en sú sem lak úr skip­inu deg­in­um áður dreifðist hún meira en ella en var þó skaðminni. „Það er al­veg ljóst að við þurf­um að fá bætta aðstöðu til hreins­un­ar,“ seg­ir Hösk­uld­ur og bæt­ir við að þróin sem notuð var hafi ekki verið ætluð til þess­ara nota. „Það þyrfti að fá plan þar sem við gæt­um skolað af búnaðinum með safnþróm til að taka á móti því sem af búnaðinum kem­ur. Við höf­um núna bara slökkvistöðvarn­ar og niður­föll­in þar eru tengd hol­ræsa­kerf­inu og við vilj­um ekki setja þetta í hol­ræsa­kerfið.“

Jón Viðar tek­ur und­ir að koma þurfi upp betri hreins­un­araðstöðu fyr­ir slökkviliðið. „Það er það mik­il meng­un og óþrifnaður af þessu að það er ekk­ert fyr­ir­tæki með olíuþró sem hef­ur áhuga á að fá okk­ur í heim­sókn eft­ir svona aðgerðir. Við þurf­um eig­in­lega að vera með okk­ar eig­in aðstöðu.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka