Annað olíuútkall

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þarf betri aðstöðu til að þrífa búnað sinn eftir olíuhreinsunarstarf. Þetta er samdóma álit Höskuldar Einarssonar, deildarstjóra mengunarvarna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, og Jóns Viðars Matthíassonar slökkviliðsstjóra.

Slökkviliðið stóð í fyrradag í miklu hreinsunarstarfi í Sundahöfn í kjölfar svartolíuleka en að starfinu loknu var hreinsibúnaðurinn fluttur á plan hjá Gelgjutanga þar sem hann var þrifinn. Þar er til staðar þró sem var notuð til að taka á móti olíunni sem þakti búnaðinn sem og efnunum sem voru notuð við hreinsunina. Að sögn Höskuldar fylltist þróin því sem næst en í kjölfar rigningar um nóttina yfirfylltist hún og olían og hreinsiefnin dreifðu sér um Snarfarahöfn. Þá komust efnin neðst í Elliðaárnar og að Bryggjuhverfinu.

Þar sem olían var þynnri en sú sem lak úr skipinu deginum áður dreifðist hún meira en ella en var þó skaðminni. „Það er alveg ljóst að við þurfum að fá bætta aðstöðu til hreinsunar,“ segir Höskuldur og bætir við að þróin sem notuð var hafi ekki verið ætluð til þessara nota. „Það þyrfti að fá plan þar sem við gætum skolað af búnaðinum með safnþróm til að taka á móti því sem af búnaðinum kemur. Við höfum núna bara slökkvistöðvarnar og niðurföllin þar eru tengd holræsakerfinu og við viljum ekki setja þetta í holræsakerfið.“

Jón Viðar tekur undir að koma þurfi upp betri hreinsunaraðstöðu fyrir slökkviliðið. „Það er það mikil mengun og óþrifnaður af þessu að það er ekkert fyrirtæki með olíuþró sem hefur áhuga á að fá okkur í heimsókn eftir svona aðgerðir. Við þurfum eiginlega að vera með okkar eigin aðstöðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert