Istorrent.is opnuð aftur á föstudag

Svavar Lúthersson.
Svavar Lúthersson.

Deiliskráasíðan Istorrent.is hefur verið lokuð frá því að Svavar Lúthersson fékk á sig kæru frá félögum þeim er halda utan um höfundarrétt á Íslandi. Hæstiréttur vísaði málinu frá á fimmtudag af tæknilegum ástæðum og hyggst Svavar nú opna aftur fyrir skráaskipti á síðunni á föstudag. Þá geta innskráðir aftur sótt frían aðgang að höfundarvörðu afþreyingarefni. Þar inni hefur m.a. verið að finna vinsæla sjónvarpsþætti, nýjar kvikmyndir og tónlist.

Snæbjörn Steingrímsson hjá SmáÍs (Samtökum myndrétthafa á Íslandi) er ekki sáttur. „Við viljum að það verði tekið efnislega á málinu. Það er ekki búið að dæma um það hvort svona síða er lögleg eða ekki undir höfundarréttarlögum,“ segir Snæbjörn. „Við viljum fá það í gegn.“

Málinu var vísað frá af Hæstarétti eftir að reglum um málsóknarumboð var breytt. Snæbjörn undirbýr nú aðra málsókn með umboðum sem ættu að verða samþykkt fyrir rétti. Það er því ljóst að þetta mál er fjarri því að vera lokið.

Stórsigur segir Svavar

„Ég lít ekki á þetta sem fullnægjandi sigur, þetta er stórsigur,“ segir Svavar sem viðurkennir þó að hafa orðið smeykur eftir kæruna. Hann heldur þó sinni sannfæringu og mun opna fyrir skráaskipti núna á föstudaginn.

„Það verður sama stefna og áður. Það verða öll skráaskipti leyfð nema rétthafar tilkynni okkur að þeir séu á móti því að efni þeirra sé þarna inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert