Í Baugsmálinu svonefnda sem tekið var fyrir í Hæstarétti í morgun fór Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari vandlega og lið fyrir lið í gegnum málið og lagði ákæruvaldið fram 11 skjalamöppur máli sínu til stuðnings.
Sigurður Tómas lagði áherslu á að heildarmat yrði lagt á sönnunargögnin og sagði að dæmi væru fyrir því að Hæstiréttur hafi snúið sýknudómi á slíku heildarmati.
Áfrýjunarmál þetta er höfðað gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Baugs, Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs og Jóni Geraldi Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna.
Engar vitnaleiðslur eru í þessu áfrýjunarmáli en vísað er til þeirra vitnayfirheyrslna sem þegar hafa farið fram fyrir Héraðsdómi.
Á morgun fá verjendur tækifæri til að fara í saumana á málinu og skýra það út fyrir dómurunum frá sínum bæjardyrum séð en ekki er reiknað með að málið taki meira en þessa tvo daga í flutningi fyrir Hæstarétti.
Hæstaréttardómarnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson dæma málið.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Tryggvi dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og þeir Jón Ásgeir og Jón Gerald í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Héraðsdómur vísaði upphaflega flestum ákæruatriðum málsins frá en Hæstiréttur ómerkti dóminn og gerði héraðsdómi að kveða upp efnisdóm.
Ákæra í málinu var í upphafi í alls nítján liðum en 1. ákæruliðnum, sem snerist um viðskipti með móðurfélag 10-11 verslananna á árunum 1998 og 1999, var vísað frá héraðsdómi sumarið 2006. Hæstiréttur staðfesti síðar þá frávísun.
Héraðsdómur vísaði síðan 10 ákæruliðum til viðbótar frá í maí á síðasta ári en dæmdi Tryggva í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi, aðallega fyrir að láta útbúa tilhæfulausar kreditnótur og rangfæra þannig bókhald Baugs. Jón Ásgeir var einnig fundinn sekur um að hafa látið Jón Gerald útbúa tilhæfulausan kreditreikning fyrir upphæð að fjárhæð nærri 62 milljónir króna. Jón Gerald var sýknaður.
Hæstiréttur felldi frávísun héraðsdóms að mestu úr gildi og sá angi málsins sem sneri að þeim var endurfluttur í júní. Í þeim hluta var Jón Ásgeir sýknaður en skilorðsbundin refsing Tryggva þyngd um þrjá mánuði. Þá var Jón Gerald dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar refsingar.
Í greinargerð ákæruvaldsins sem send hefur verið til Hæstaréttar er lögð áhersla á að brotin hafi verið framin af tveimur æðstu stjórnendum almenningshlutafélags sem skráð hafi verið á almennum markaði.
Tryggvi og Jón Ásgeir hafi notað þekkingu sína á sviði bókhalds og endurskoðunar til að leyna brotlegri starfsemi sinni.
Ákæruvaldið telur brotin hafa beinst gegn mikilvægum opinberum hagsmunum, kaupendum og seljendum hlutafjár í félaginu, viðskiptamönnum, lánardrottnum og trúverðugleika verðbréfamarkaðar hér á landi í heild.