Samningur eflir traust og tryggir fjármálastöðugleika

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir að tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamningar milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands séu mikilvægur áfangi til að efla traust á íslensku fjármálakerfi og tryggja fjármálastöðugleika í landinu.

Ingibjörg segir í yfirlýsingu, að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi undanfarið unnið hörðum höndum að margþættum aðgerðum til að styrkja stoðir fjármálakerfisins og koma réttum og skýrum skilaboðum á framfæri til þeirra sem fylgjast með á erlendri grundu. Undirstöður íslensks fjármálakerfis séu sterkar og samningarnir við hina norrænu banka styrki þær enn frekar.

Þá segir Ingibjörg Sólrún, að unnið sé að skipulagsbreytingum hér heima sem ætlað sé að auka efnahagslegan stöðugleika. Þá liggi fyrir að félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs verði eflt og gert skýrara en samkeppnisskilyrði á húsnæðismarkaði um leið jöfnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert