Bárður R. Jónsson var kjörinn formaður Breiðavíkursamtakanna á aðalfundi samtakana um helgina. Á aðalfundinum voru samþykktar lagabreytingar sem fela það í sér, að samtökin eru nú opin öllu áhugafólki um barnaverndarmál og sögu þeirra.
Stjórn samtakanna er eftir aðalfundinn skipuð eftirfarandi einstaklingum:
Bárður R. Jónsson, formaður, Georg Viðar Björnsson, varaformaður, Þór Saari, gjaldkeri, Friðrik Þór Guðmundsson, ritari, Ari Alexander Ergis Magnússon, meðstjórnandi, Gísli Már Helgason, varastjórn og
Sigurgeir Friðriksson, varastjórn.
Bárður Ragnar sagði eftir kjörið að mikilvægasta málið sem samtökin þyrftu nú að vinna að er að fylgja eftir væntanlegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna væntanlegra bóta til Breiðavíkurdrengja. Það væri miður ef þessir menn, sem allir eru nú komnir á miðjan aldur, sætu eftir með þá tilfinningu að samfélagið hafi brugðist þeim öðru sinni, að því er segir í tilkynningu.
Samtökin þyrftu líka að líta fram á við, að láta vita af sér, minna á barnaverndarmál og fá til liðs við sig sem flesta er vilja vinna að þessum málum. M.a. þess vegna hafi lögum félagsins verið breytt og félagið opnuð öllum sem hafa áhuga á barnaverndarmálum og sögu þeirra.
Nokkrar umræður urðu á aðalfundinum um að breyta nafni samtakanna í því skyni að höfða til breiðari hóps, í ríkara mæli en fólst í samþykktum lagabreytingum, en ekki voru þó bornar fram tillögur þess efnis. Breytingarnar á tilgangi og markmiðum samtakanna undirstrika þó þessa þróun til útvíkkunar samtakanna.
Tekjur samtakanna voru tæplega 704.000 krónur á starfsárinu, en útgjöld tæplega 579 þúsund krónur.