Telur álit Skipulagsstofnunar stóran áfangasigur

Lára Hanna Einarsdóttir
Lára Hanna Einarsdóttir mbl.is/Valdís Thor

„Ég er alsæl,“ sagði Lára Hanna Einarsdóttir, sem staðið hefur fyrir baráttu gegn áformum um Bitruvirkjun. Skipulagsstofnun lýsti því yfir í dag, að bygging Bitruvirkjunar væri ekki viðunandi vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.

Þá segir í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis. „Við erum svo sammála ég og Skipulagsstofnun,“ sagði Lára Hanna í samtali við mbl.is.

Að mati Láru Hönnu eru þetta bestu mögulegu fréttirnar og lítur hún á niðurstöðuna sem stóran áfangasigur. „Þetta er bara álit þar sem Skipulagsstofnun er bara álitsgjafi en ekki úrskurðaraðili. Næstu skref finnst mér að ættu að vera annarsvegar að Orkuveita Reykjavíkur taki sig saman í andlitinu og hætti við,“

Einnig finnst Láru Hönnu nauðsynlegt að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins Ölfus því þrátt fyrir að Orkuveitan myndi hætta við þá gæti annar aðili komið þarna inn og virkjað.

Láru Hönnu finnst rökin sem Skipulagsstofnun kemur með í skýrslu sinni gríðarlega sterk. „Ef ekki verður hlustað á þessi rök hvar erum við þá á vegi stödd?“. Hún segir þó að hún sé mun bjartsýnni í dag en í gær. „Öll skynsemi og öll rök segja að þetta eigi ekki að gerast. Það á ekki að virkja þarna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert