Þær Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, og Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG, lögðu fram sameiginlega bókun á stjórnarfundi OR í dag þar sem segir að álit Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun marki tímamót að því er varðar afstöðu opinberra aðila í þágu náttúru- og umhverfisverndar.
„ Í því ljósi væri rétt að falla frá öllum áformum um virkjun á svæðinu þótt ánægjulegt sé að stjórnin samþykki að hætta undirbúningi virkjunar og fresta framkvæmdum. Sterk náttúruverndarrök hníga að því að eira svæðinu til langrar framtíðar auk þess sem rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er í farvatninu þar sem þessi kostur er til skoðunar meðal annarra," segir í bókun þeirra Sigrúnar og Svandísar.