Fyrsta skemmtiferðaskipið í ár

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins lagðist að Miðbakka í Reykjavíkurhöfn í gær. Skipið heitir MS Fram og er norskt. Það er nýjasta skipið sem er sérútbúið fyrir siglingar á norðurslóðum og i hafinu við suðurskautið.

Skipsskrokkurinn er stærri en á venjulegum skemmtiferðaskipum og því er hægt að fara nær ísnum og jafnvel sigla í gegnum þynnri íslög ef til þess kæmi.

Mikið af Norðurlandabúum ferðast með skipinu til að sjá Grænland og einnig mikið af Þjóðverjum og Bandaríkjamönnum. Margir gestir hafa þegar ferðast mikið um heiminn en eiga eftir að sjá Suðurskautslandið. „Segja má að hjá fólki sem hefur ferðast mikið sé þetta góður lokaáfangastaður,“ segir Rune Andreassen skipstjóri.

Það kostar 2.700 evrur eða rúmlega 300 þúsund krónur að fara í vikusiglingu í venjulegu farrými. Mest tekur skipið 318 farþega og núna eru 230 farþegar um borð sem halda til Grænlands.

Innréttingin í skipinu tekur mið af Fram, hinu fræga skipi Friðþjófs Nansen. Einnig má sjá mikið af grænlenskri menningu og bera t.d. matsalurinn og skoðunarsalurinn grænlensk nöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert