Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld, að ríkisstjórnin muni á næstu árum beita sér fyrir frekari þróun orkugjafa sem geta komið í stað jarðefnaeldsneytis.
Össur sagði að stjórnvöld Íslendingar ættu nú að gera klárt fyrir orkuskipti á bíla- og bátaflotanum með tækniþróun og byggja fjölorkustöðvar á helstu þéttbýlisstöðum þar sem hægt væri að fá rafmagn, vetni, etanól og metanól. Þannig yrðu Íslendingar tilbúnir til að taka við nýrri kynslóð nýorkubíla þegar fjöldaframleiðsla á þeim hæfist og það væri skammt í það.
Þá sagði Össur að nýja atvinnulífið sé framtíðin. Ríkisstjórnin hefði lagt mikla áherslu á að bæta starfsumhverfi sprotafyrirtækjanna, sem væru mjólkurkýr morgundagsins. Í dag hefði m.a. verið gengið frá samstarfi við Nýsköpunarsjóð um sérstaka liðveislu við markaðssetningu nýrrar vöru.
Á morgun yrði tilkynnt um stofnun 4,6 milljarða króna samlagssjóðs stjórnvalda, Nýsköpunarsjóðs, banka og lífeyrissjóða til að ýta undir fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. „Þetta er nýja atvinnulífið," sagði Össur.