Ríkisstjórn brostinna vona

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar væri ríkisstjórn brostinna vona sem ekki hefði reynst starfi sínu vaxin.

„Ríkisstjórn hinna sofandi afla hefur fagnað árinu, en hún getur ekki fagnað árangrinum," sagði Guðni.

„Ríkisstjórnin heldur að hún geti sagt þjóðinni að 80% af öllum stefnumálum séu þegar í höfn. Þetta er hroki, þetta eru blekkingar, þegar ríkisstjórnin ræður ekki við það mikilvægasta að halda verðbólgu í skefjum og búa íslenskri þjóð breiða götu í efnahagsmálum. Stjórn sem fær falleinkun í fjármálastjórn væri leyst frá störfum í hvaða hlutafélagi sem er á aðalfundi. Nú blasa við gjaldþrot í atvinnulífi, vaxandi vandamál sem hver maður finnur á eigin skinni og í eigin veski. Vaxandi atvinnuleysi er spáð á næstu misserum," sagði hann.

Guðni sagði, að mikið pláss væri fyrir framsækinn frjálslyndann, umbótasinnaðann stjórnmálaflokk á miðju íslenskra stjórnmála.

„Samfylkingin sveik alþýðuna hún ætlaði að vera turninn sem stæði vörð um lífskjör almennings. Nú hvílir Samfylkingin rjóð og undirleit í faðmi Sjálfstæðisflokksins, blessuð litla stúlkan. Samfylkingin hefur forðast það svæði í pólitíkinni sem jafnaðarmenn á Norðurlöndum varða svo vel, Samfylkingin nefnir sjaldan láglaunastéttirnar, verkakonuna, sjómanninn og bóndann. Samfylkingin vill vera og er flokkur hinnar menntuðu elítu. Þess vegna hefur skírskotun Ingibjargar Sólrúnar verið að þrengjast. Við framsóknarmenn munum stilla upp til sóknar á skákborði okkar öflugri sveit karla og kvenna sem mun verja hagsmuni hins almenna borgara á Íslandi," sagði Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert