„Þegar löggan kom var allt á léttu nótunum, við vorum hvorki undir áhrifum áfengis eða með læti. Einn lögreglumaðurinn bað vin minn um að tæma vasa sína sem og hann gerði. Hann var með farsímann sinn innan á nærbuxunum og þegar hann ætlaði að sýna löggunni símann, brjálaðist hún allt í einu og réðst á hann.“
Svona lýsir Ágúst Hlynur Þórisson, 16 ára unglingur, atburðarásinni í verslun 10-11 í Grímsbæ um ellefuleytið á mánudagskvöldið, þegar lögreglumaður réðst á 17 ára félaga hans og tók kverkataki. Myndbandsupptaka af atvikinu lak á netið í kjölfarið og vakti hörð viðbrögð í samfélaginu.
Vinur Ágústs var fluttur á lögreglustöð en hann var síðar fluttur aftur að versluninni. „Verslunin hafði áður tilkynnt lögreglunni um þjófnað í versluninni, en sá náði að flýja af vettvangi. Starfsfólk búðarinnar bað okkur afsökunar á því sem gerðist eftir að löggan var farin.“
Að sögn Hlyns var vini hans mjög brugðið vegna atviksins og hann íhugar að kæra lögreglumanninn til lögreglu.
Drengirnir voru sjö talsins, á aldrinum 16 og 17 ára. Tveir starfsmenn voru í búðinni, 19 og 20 ára. Lögreglumennirnir voru sex talsins og komu á tveimur bílum.