Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir, að í Hveragerði geti fólk safnast saman á bílaplaninu nálægt Hótel Örk og mun viðbragðshópur Rauða krossins koma þangað innan stundar með aðstöðu.
Björgunarsveitir eru á leið á skjálftasvæðið. Landssamband björgunarsveita Landsbjörg hafa sent stjórnendur inn á jarðskjálftasvæðið til að styrkja svæði sem verst hafa orðið úti. Björgunarsveitir frá Klaustri til höfuðborgarsvæðisins. Auk þess hafa verið send tjöld og búnaður frá Suðurnesjum.
Í tilkynningu segir, að ef verulegar skemmdir hafi orðið á húsum sé nauðsynlegt að loka fyrir vatnsinntak og slökkva á aðalrofa í rafmagnstöflu. Fólk er hvatt til að athuga hvort hættuleg eða eldfim efni hafi hellst niður. Þá eigi fólk að fara rólega út ef annar skjálfti verður og varist óðagot.
Þá er fólk hvatt til að hlusta á útvarp og fylgjast með öðrum fjölmiðlum þar sem allar tilkynningar um skjálftann og önnur mikilvæg atriði verður útvarpað um leið og ástæða þykir. Best er að klæðast hlífðarfötum og góðum skóm þar sem hlutir og glerbrot geti verið að falla eftir skjálftann. Einnig er fólk hvatt til að athuga hvort nágrannar þarfnast hjálpar.