Þungatakmarkanir á Ölfusárbrú

Skemmdir urðu á Óseyrarbrú í skjálftanum.
Skemmdir urðu á Óseyrarbrú í skjálftanum. mbl.i/Golli

Sérfræðingar Vegagerðarinnar hafa lokið skoðun á Ölfusárbrú í kjölfar skjálftans, og hafa verið settar þungatakmarkanir á umferð um brúna við 40 tonn. Öll almenn umferð, fólksbílar og venjulegir vörubílar, geta því áfram ekið um brúna. Sjáanlegar skemmdir hafa orðið á Óseyrarbrú en umferð hefur samt verið hleypt á brúna. 

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri fóru um jarðskjálftasvæðið, ásamt Aroni Bjarnasyni brúasérfræðingi, til að kanna ástand samgöngumannvirkja. Hreinn sagði skemmdir hafa orðið á gömlu Ölfusárbrúnni, Óseyrarbrúnni og vegum. 

Legur undir gömlu Ölfusárbrúnni skemmdust en Hreinn sagði að hægt væri að gera við þær síðar. Skemmdirnar eru hvorki taldar hættulegar fyrir mannvirkið né fyrir almenna umferð. Því verður hægt að leyfa alla almenna umferð um brúna en ekki verða gefnar undanþágur frá hámarksþyngd fyrst um sinn.

Óseyrarbrúin er sýnilega meira skemmd og steypa í báðum endastöplunum er brotin. Hreinn sagði að brúin hefði slegist öll mjög harkalega til hliðanna og brotið steypta vængi sem eru utan á brúarbitunum á endastöplunum.

Óseyrarbrúin situr á sérhönnuðum gúmmílegum fylltum blýi sem sitja í sérstökum sætum. Þessum búnaði er ætlað að taka upp orkuna við atburði sem þessa. Hreinn sagði að burðarvirki brúarinnar væri óskemmt og að hún gæti annað allri umferð. Hins vegar þarf fyrr eða síðar að skipta um legurnar sem aflöguðust við jarðskjálftann og það verður talsvert kostnaðarsamt vegna þess hversu fyrirhafnarmikið er að komast að þeim.

Vegirnir reyndust ekki mikið skemmdir og var þeim hvergi lokað fyrir umferð nema á tímabili í Grafningi. Þar seig spilda úr hárri fyllingu sem náði inn í veginn og myndaðist skarð í vegaröxlina. Eins urðu skemmdir í efsta lagi vegarins á nokkuð löngum köflum undir Ingólfsfjalli. Þar mynduðust langsprungur í vegöxl og í miðju vegar á a.m.k. einum kafla. Sett voru upp varúðarskilti og bráðabirgðaviðgerð hófst þegar í dag.

Þá urðu skemmdir í veginum milli Eyrarbakka og Óseyrarbrúar. Þar mynduðust mjóar sprungur þvert yfir veginn á tveimur stöðum. Gera á við þær á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert