Viðlagatrygging Íslands bætir tjón af völdum jarðskjálfta á húseignum og ennfremur á lausafé hafi eigendur tryggt það gegn bruna. Tjónþolum er bent á að tilkynna tjón sitt til þess vátryggingafélags sem seldi því vátrygginguna. Matsmenn vátryggingafélaganna munu meta tjón á innbúi og lausafjármunum.
Í tilkynningu frá Viðlagatryggingu segir, að æskilegt sé að fólk haldi til haga þeim lausafjármunum sem orðið hafa fyrir skemmdum og taki ljósmyndir af tjóninu ef kostur er.
Viðlagatrygging vill beina því til íbúa á jarðskjálftasvæðum að grípa til allra tiltækra ráðstafanna til að afstýra frekara tjóni og má þar nefna að loka fyrir vatnsinntak verði vart skemmda á hita- eða vatnslögnum.
Skemmdir á fasteignum skal einnig tilkynna til vátryggingafélagsins sem seldi tjónþola vátrygginguna. Tjón á húseignum verður metið að sérfróðum matsmönnum á vegum Viðlagatryggingar. Viðlagatrygging Íslands mun á næstu dögum opna þjónustuver á hamfarasvæðinu.
Matsmenn Viðlagatryggingar munu bráðlega hefjast handa við tjónamat þegar atburðurinn er að fullu yfirstaðinn og lokið er könnun á heildarumfangi tjónsins. Þar sem ljóst er að víðtækt tjón hefur orðið á lausafjármunum og mannvirkjum er fólk beðið að sýna biðlund. Tjón verður metið og bætt en það mun taka nokkurn tíma að ljúka því verki.