260 þúsund símtöl á klukkustund

mbl.is/Guðmundur Karl

Fjarskiptakerfi Vodafone stóðust það gríðarlega álag sem varð á kerfinu í gær í kjölfar jarðskjálftans á Suðurlandi. GSM samband hélst á öllu skjálftasvæðinu, en tímabundnar truflanir á rekstri fáeinna senda ollu skertu GSM sambandi innanhúss um stund. GSM þjónusta utanhúss var óskert, samkvæmt tilkynningu.

Alls voru GSM símtöl hjá Vodafone um 260 þúsund talsins á fyrstu klukkustundinni eftir skjálftann. Álagið á GSM kerfið minnkaði eftir því sem leið á daginn og var notkunin að mestu komin í eðlilegt horf um kl. 19.

Álagið á GSM kerfið var mest á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á svæðum þar sem fjölmenn atvinnustarfsemi fer fram. Á landsbyggðinni var álagið á GSM kerfi Vodafone fimmfalt meira en vanalega á þessum tíma dags og í Reykjavík ríflega tvöfaldaðist álagið, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert