Það voru ekki bara íbúar á skjálftasvæðinu sem ákváðu að gista í tjöldum eftir að jarðskjálftinn reið yfir í gær. Í viðtali við AP fréttastofuna, segir Davide Giammaria, þrítugur Rómarbúi sem staddur er í leyfi á Íslandi, að það hvarfli ekki að honum að sofa innandyra í ferðinni. Hann sé miklu öruggari í tjaldi því þar sé ekki hætta á að verða undir hlutum.
Í fréttinni er einnig rætt við Lorre Napoli, örveirufræðing frá Phoenix, Arizona, sem er vön því að rigningin elti hana hvert sem hún fer og þó ferðist hún víða. „En þetta er í fyrsta skipti sem það hvarflar að mér að ég hafi kannski haft jarðskjálfta með mér. Því ég spurði bílstjórann og hann sagði að það hafi ekki verið neinir jarðskjálftar hér í einhvern tíma."
AP hefur eftir Víði Reynissyni, hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að tæplega þrjátíu manns hafi slasast í skjálftanum. Að sögn Víðis eru á milli 10-20 hús óíbúðarhæf vegna brotinna veggja og glugga. Hann segist hins vegar ekki hafa nákvæma tölu um hve mörg hús eru ónýt.