Eftir Baldur Arnarson
„Strákurinn var einn uppi á annarri hæð og ég hér ein fyrir utan húsið. Það féll stór bókaskápur fyrir útidyrahurðina og hann komst ekki út. Hann var í mikilli geðshræringu út af því og skrámaðist á maga þegar hann reyndi að troða sér út,“ sagði Elínborg Ólafsdóttir, íbúi við Breiðamörk í Hveragerði, um hvernig hinn átta ára gamli Runólfur Gíslason upplifði innilokun vegna skjálftans.
„Maður er búinn að vera sjóveikur. Það er ekki búin að líða ein mínúta þar sem allt er alveg kjurt,“ sagði Elínborg, þar sem jörðin skalf í smærri eftirskjálftum. Handan götunnar í bakaríinu Hverabakaríi hristist allt og skalf og lá bakkelsi og drykkjarflöskur á víð og dreif um gólfið.
„Það hristist allt fram og til baka. Við ætluðum að reyna að hlaupa út en það var ekkert hægt, það hristist svo mikið, sagði Gunnhildur Rut Kristinsdóttir, afgreiðslustúlka í bakaríinu.
Steinsnar frá sýndi Guðrún Erna Jónsdóttir, íbúi við Breiðamörk, hvernig innbú hennar stórskemmdist í skjálftanum. Sjónvarpið lá brotið á stofugólfinu innan um aðra muni. „Það er allt saman í molum inni. Innbúið er rosalega illa farið, nema eldhússkáparnir hafa haldið, allt annað er í rúst.“
„Gríðarlegt tjón af vörum“
Óli Þór Ragnarsson, lyfsöluleyfishafi hjá Lyfi og heilsu, við heilsugæslustöðina ofar í götunni, sagði sér „strax hafa orðið ljóst hvað væri að gerast“.
„Þetta reið svo snöggt yfir að við starfsfólkið og viðskiptavinir ruddumst bara út. Það fór allt af stað inni og hrundi úr hillum og liggur eins og hráviði um allt gólf. Það er gríðarlegt tjón á vörum hérna. Þetta er brotið hérna, snyrtivörur, ilmvatnið og allt. Við eigum eftir að skoða það hvað af þessu er heilt,“ sagði Óli Þór, en í þeim töluðum orðum hljóp blaðamaður út þegar snarpur eftirskjálfti skók húsið. Björn Ingvason húsasmiður varð fyrir því óláni að tábrotna í skjálftanum, en hann sagði allt brotið og bramlað á heimili sínu í bænum.