Mat á tjóni unnið hratt

Svona var útlítandi í bílskúr í Hveragerði.
Svona var útlítandi í bílskúr í Hveragerði. mbl.is/Guðmundur Karl

Strax eftir jarðskjálftann hóf Viðlagatrygging Íslands að skipuleggja viðbrögð. Haft var samband við tjónadeildir vátryggingafélaganna og munu þær annast mat og uppgjör innbústjóna og munu matsmenn vátryggingafélaganna bregðast hratt við. Var þetta kynnt af viðskiptaráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Tjón á húseignum verður metið af sérfróðum matsmönnum á vegum VÍ en þeir munu hefjast handa þegar atburðurinn er að fullu yfirstaðinn og lokið er könnun á heildarumfangi tjónsins. Hefur tjónþolum verið bent á að tilkynna tjón sitt til þess vátryggingafélags sem seldi því vátrygginguna. Fulltrúar frá VÍ munu í dag funda með almannavaranefnd á tjónasvæðinu og kanna svæðið ásamt tæknilegum ráðgjöfum.

Tjónamiðstöð í húsnæði VST á Selfossi

VÍ mun nú þegar opna þjónustuver á tjónasvæðinu og er leit að húsnæði þegar hafin, en fyrst um sinn verður aðsetur VÍ á skrifstofu VST á Selfossi. Mikilvægt er að fólk haldi til haga skemmdum á innbúi að tiltekt lokinni til að auðvelda mat á tjóni.

Reynsla af jarðskjálftunum árið 2000 sýnir að flest nýrri og velbyggð hús standast vel áraunina og altjón eru tiltölulega fá miðað við þann mikla fjölda húseigna sem verður fyrir minni skemmdum. Meðaltjónsfjárhæð í skjálftunum árið 2000 var um 1,3 milljónir króna. Heildartjónabætur sem greiddar voru nema rúmlega 2,6 milljörðum króna. Má reikna með að þær upphæðir séu verulega hærri nú þar sem um mikið þéttbýlla svæði er að ræða, samkvæmt tilkynningu.

„Mat á tjóni húseigna af völdum jarðskjálfta er vandasamt og tímafrekt verk og nauðsynlegt er að það sé unnið af sérfróðum aðilum. Viðlagatrygging hefur aðgang að hópi verk- og tæknifræðinga sem hafa víðtæka reynslu að mati á jarðskjálftatjónum. Þegar er farið að kalla menn til verka, en þó er ljóst að vikur og mánuðir munu líða áður en séð muni fyrir endann á tjónamati á húseignum.

Þegar frekari upplýsingar um umfang tjóns liggja fyrir mun ríkisstjórnin taka afstöðu til þess hvernig komi verði til móts við þá aðila sem orðið hafa fyrir tjóni sem ekki fæst bætt úr viðlagatryggingu," samkvæmt tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert