Stóðu ekki í fæturna í kaffiskúrnum

Sigurður Þór Emilsson skoðar skemmdirnar.
Sigurður Þór Emilsson skoðar skemmdirnar. mbl.is/Golli

Hjónin Hafrún Ósk Gísladóttir og Sigurður Þór Emilsson á Eyrarbakka upplifðu jarðskjálftann sterkt, en hvort á sínum stað. Hafrún náði að verja sjö mánaða son sinn fyrir fljúgandi hlutum og marðist við það. Sigurður var í kaffiskúr í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli, rétt við upptök skjálftans, og þar stóðu menn ekki í fæturna.

Hafrún var á heimilinu á Eyrarbakka þegar lætin byrjuðu ásamt sonum þeirra hjóna, Óskari Frey sjö mánaða og Ágústi Bjarka tólf ára. Hún var inni í eldhúsi með Óskar þegar dótið fór að þeytast út úr eldhússkápunum. Náði að leggja saman barnastólinn og taka strákinn til sín. Hún fékk mikið högg sem skildi eftir slæmt mar á olnboganum og telur að ef hún hefði ekki náð að skýla barninu hefðu hlutir lent í höfði þess.

„Ég dreif mig út. Var svo heppin að vera með bíllyklana í peysuvasanum svo ég komst strax inn í bílinn með börnin,“ segir Hafrún.

Við upptökin

Sigurður ekur vörubíl og var að sækja farm í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli, rétt við upptök jarðskjálftans. Hann kom aðeins við í kaffiskúr sem þar er. Þar voru fimm menn þegar jörð tók að hreyfast. „Það hristist allt og skalf. Við stóðum ekki í fæturna,“ segir Sigurður.

Hann segir að miklar skriður hafi farið af stað í námunni og telur að stórhætta hefði skapast ef menn hefðu verið við vinnu. Sigurður segir að ekkert annað hafi verið að gera en að drífa sig í burtu, til Selfoss og beinustu leið heim á Eyrarbakka.

Fjölskyldan hélt enn til í bílnum um kvöldmatarleytið í dag , hætti sér ekki inn í húsið vegna hættunnar á stórum eftirskjálfta. Veðrið var gott svo eldri börnin vildu frekar sitja úti í garðinum.

Heimilið er illa farið, sérstaklega eldhúsið eins og víðar, og húsið hefur skemmst.

Þau bjuggu á svæðinu í skjálftunum árið 2000. „Það voru bara kettlingar miðað við þennan,“ segir Hafrún, „þá hrundi eitthvert gler úr efstu hillum og smásprungur en ekkert í líkingu við það sem gerðist nú.“
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert