Tæknin hélt að mestu leyti

Rúmlega 86 þúsund manns lásu upphafsfrétt mbl.is um jarðskjálftann, sem  var komin á vefinn kl. 15:47.  Tugir þúsunda lásu framhaldsfréttir sem skrifaðar voru á mbl.is jöfnum höndum eftir því sem þær bárust.

Vefur Veðurstofunnar hrundi í skamma stund  í kjölfar jarðskjálftans. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni lá hann þó einungis niðri í um hálftíma.

Símkerfi Símans datt út við Þingvelli, við Úlfljótsvatn og víðar. Fulltrúi í þjónustuveri Símans sagði að gríðarleg álag hefði verið á símkerfinu þó nokkra stund eftir skjálftann og erfitt hefði verið að ná í gegn. Um var að ræða talsímasamband og gsm-samband.

Um klukkan níu í kvöld bárust þær upplýsingar að allt símasamband fastlínu og gsm sem datt út við jarðskjálftann á Suðurlandi væri þá komið í lag.Einnig eru allar gagnaflutningsleiðir Símans virkar á svæðinu.


Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, sagði að samband Vodafone hefði hvergi dottið alveg út, en sendar í nágrenni við upptökin hefðu þó orðið óvirkir.

„Það varð mjög mikið álag hjá okkur og sennilega stærsti toppur sem við höfum séð í notkun á farsímakerfinu,“ sagði Hrannar. Sendar á tveim, þrem stöðum duttu út en utanhússsamband hélt sér þó. „Þegar einhverjir sendar detta út eru færri rásir til skiptanna og minni gæði á þjónustunni en ekkert svæði alveg sambandslaust,“ sagði Hrannar.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert