„Tröppurnar losnuðu frá húsinu og það sést þarna undir vegginn,“ sagði Jónas Birgisson, systursonur ábúandans á Þóroddsstöðum í Ölfusi, þar sem hann lýsti miklum skemmdum á burðarvirki íbúðarhússins.
Allir innanstokksmunir voru á tjá og tundri og varð viðstöddum ekki um sel þegar greinilegir eftirskjálftar skóku veggi hússins, sem þegar var illa farið af sprungum eftir hamfarirnar á Suðurlandi.
Þorsteinn Jónsson er ábúandinn á bænum og hugðist hann snúa heim í dag eftir dvöl á Reykjalundi.
Við íbúðarhús hans á Þóroddsstöðum stendur hvítmálað fjós og mátti greina breiðar sprungur við annan gafl þess, þar sem Jónas kannaði skemmdirnar um tveimur tímum eftir skjálftann. Taldi Jónas óhætt að áætla að fjósið væri stórskemmt, ef ekki ónýtt, auk þess sem hluti framhliðar gamals, steinsteypts bílskýlis hrundi á dráttarvél sem þar stóð.
Guðrún Erna, systir Þorsteins, var á Þóroddsstöðum þegar ósköpin dundu yfir. „Ég bara stóð og sá allt sem flogið gat úti í Ölfusi. Það er allt í rúst þar.“