Rauði krossinn verður með vakt
í Hveragerði og á Selfossi eftir lokun þjónustumiðstöðva í kvöld, sunnudag.
Fólki er einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til
að leita sér upplýsinga og aðstoðar. Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn
og er gjaldfrjáls.
Í Hveragerði verða sjálfboðaliðar
við í húsnæði Rauða krossins í Austurmörk frá klukkan 19 í kvöld til
miðnættis. Þá verða sjálfboðaliðar á vakt á Selfossi í húsnæði Rauða krossins
að Eyrarvegi 23 frá klukkan 19 til miðnættis.
Áfallahjálparteymi Rauða krossins
verður að störfum í þjónustumiðstöðvunum á Selfossi og í Hveragerði næstu
daga frá klukkan 17 til 20.
Borgarafundir verða haldnir í dag
í Sunnulækjarskóla á Selfossi klukkan 17 og í félagsheimilinu Stað á
Eyrarbakka klukkan 20:30. Íbúar eru hvattir til að sækja fundina en þar
verða fyrir svörum fulltrúar Rauða krossins, sveitarfélagins, almannavarna,
lögreglu, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, heilbrigðisþjónustu og Viðlagatryggingar
Íslands.
Hægt er að sækja upplýsingar um
sálrænan stuðning og upplýsingar um viðbrögð við alvarlegum atburðum hér.