Rauði krossinn er með fræðslu um áfallahjálp, og áfallastreitu barna og unglinga í kjölfar jarðskjálfta í dag fyrir starfsfólk skólanna í Hveragerði. Fræðsluerindin, sem haldin eru að beiðni bæjaryfirvalda, verða haldin í leikskólunum tveimur, grunnskólanum og vinnuskólanum.
Jóhann Thoroddsen, verkefnisstjóri sálræns stuðnings hjá Rauða krossi Íslands, segir að börn bregðist oft öðruvísi við áföllum en hinir fullorðnu og skynji umhverfið eins og þroski þeirra leyfir, Börn seu sérstaklega viðkvæm í þeim aðstæðum þegar þau upplifa að umhverfi þeirra sé óöruggt og þau viti ekki á hverju þau geti átt von. Þá geti rétt viðbrögð þeirra sem standa barninu næst skipt sköpum.
Rauði krossinn bendir aðstandendum einnig á bæklinginn Aðstoð við börn eftir áfall sem hægt er að nálgast á vefsíðu félagsins.
Rauði krossinn verður með fulltrúa sína næstu vikur í þjónustumiðstöðvunum í húsnæði Rauða krossins við Austurmörk í Hveragerði og í Tryggvaskála á Selfossi milli kl. 13-20. Áfallahjálparteymi Rauða krossins veitir viðtöl milli kl. 17-20 á þessum stöðum út þessa viku.Fjölmargir hafa nýtt sér þjónustu Rauða krossins í kjölfar jarðskjálftanna á fimmtudaginn var. Áfallahjálparteymið hefur einnig hitt um 30-40 manns á dag í Hveragerði, á Selfossi og í nágrannabyggðum síðan þá.