Heldur hefur dregið úr eftirskjálftum í Ölfusi og nágrenni og í gær virtist virknin fara hægt dvínandi, að sögn Steinunnar S. Jakobsdóttur, sviðsstjóra eðlisfræðisviðs Veðurstofu Íslands. Komið hafa litlar hrinur inn á milli með jarðskjálftum um tvö stig og mest uppundir þrjú stig.
Nú þykir nær fullvíst að atburðarásin s.l. fimmtudag hafi byrjað með jarðskjálfta undir Ingólfsfjalli um kl. 15.45. Samkvæmt korti Veðurstofunnar voru upptök hans fremur grunnt eða á um 1–2 km dýpi. Ekki er hægt að fullyrða um stærð þess skjálfta en Steinunn taldi ekki ósennilegt að hann hefði verið af stærðargráðunni fimm á Richter eða þar um bil. Af verksummerkjum að dæma hefði greinilega verið þó nokkuð mikil hreyfing undir Ingólfsfjalli.
Nánast samtímis, aðeins sekúndubrotum eða fáeinum sekúndum síðar, brast á stóri jarðskjálftinn upp á 6,3 á Richter. Upptök hans voru nokkrum kílómetrum vestar og nær Hveragerði. Steinunn sagði ekki vitað hvort S-bylgjur frá jarðskjálftanum undir Ingólfsfjalli hefðu hleypt þeim stóra af stað.
Áætlað er að brotalengd meginjarðskjálftans, sem var 6,3 á Richter, sé 14 kílómetrar. Af korti Veðurstofunnar að dæma náðu jarðhræringarnar mun dýpra á misgenginu þar sem stóri skjálftinn varð en þar sem upphafsskjálftinn varð undir Ingólfsfjalli. Steinunn sagði að eftir fljótlega athugun sýndist sér að tilfærslan á upptakastað skjálftans niðri í jarðskorpunni, þar sem mesta færslan varð, hefði verið um hálfur metri.