Ný sprunga myndaðist í Reykjafjalli ofan Hveragerðis í jarðskjálftunum fyrir síðustu helgi. Hið nýja sprungusvæði er um 800 metra langt. Tveggja metra jarðsig hefur víða orðið og allt að þriggja metra breiðar sprungur opnast. Svæðið er rétt ofan nýja leirhversins sem varð til í skjálftunum og tilheyrir sömu jarðhræringum.
Að sögn Zophaníasar Friðriks Gunnarssonar, formanns Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, hafa hjálparsveitarmenn metið sprungurnar og er mælst til þess að fólk fari ekki mikið um svæðið að svo stöddu.