Jarðskjálfti kann að hafa valdið flóðbylgju á Skotlandi

Frá strönd Skotlands.
Frá strönd Skotlands. AP

Suðurlandsskjálftinn í síðustu viku kann að hafa valdið flóðbylgju sem náði að ströndum Skotlands. Fram kemur í blaðinu The Press and Journal í dag að íbúar á norðausturhluta Skotlands hafi orðið varir við óvenjuleg sjávarföll á svipuðum tíma og jarðskjálftinn reið yfir.

Blaðið segir, að sérfræðingar séu að skoða málið en tilkynningar hafi borist um bylgjuna frá íbúum á ströndinni allt frá Fraserburgh til Peterhead og jafnvel lengra suður.

Aðfallið kom að sögn íbúa á að giska sex sinnum hraðar en venjulega  og kom fram á öldumælum víða, þar á meðal á Hjaltlandseyjum. Haft er eftir Kevin Horsburgh, yfirmanni sjómælingastofnunarinnar í Liverpool, að menn hafi velt fyrir sér ýmsum skýringum, allt frá jarðskjálftanum á Íslandi til neðanjarðarsprengingar, sem kunni að tengjast olíuvinnslu í Norðursjó. Þá sé einnig hugsanlegt að gömul sprengja frá síðari heimsstyrjöldinni hafi sprungið á hafsbotni.

Einhverjar skemmdir urðu á bátalægjum á ströndinni vegna öldugangsins og landfestar báts slitnuðu í Peterhead.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt," segir Andrew Ironside, hafnarstjóri í Fraserburgh. „Þetta var afar óvenjulegt."

Flóðbylgju varð einnig vart í nyrstu eyjunum í Færeyjum daginn áður en jarðskjálftinn reið yfir á Íslandi en sérfræðingar hafa fullyrt að ekkert samband geti verið á milli sjálftans og þeirra atburða.

Frétt The Press and Journal

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka