Eftir Pétur Blöndal
Hugmynd um að Guðmundur Þóroddsson stofnaði nýtt fyrirtæki með starfsmönnum sem tæki yfir verkefni REI, útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur, kom fyrst upp í tíð hundrað daga meirihlutans í borgarstjórn og síðan aftur þegar núverandi meirihluti tók við. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði Guðmundur Þóroddsson kannað áhuga Kaupþings og kynnt þeim verkefni á meðan hann var enn forstjóri REI.
Þó að hugmyndin hafi komið upp í samtölum við borgarfulltrúa fóru formlegar viðræður aldrei fram. Og þó að þetta hafi ekki verið útilokað með formlegum hætti, þá er hugmyndin ekki á borðinu hjá stjórn REI, enda stendur yfir stefnumótun félagsins. Ekki kemur því til greina að verkefni fylgi Guðmundi við starfslok hans. Samkvæmt heimildum var hópur starfsmanna REI tilbúinn að fylgja hugmyndinni eftir og hverfa frá REI, en að minnsta kosti hluti þeirra álítur sig vera í biðstöðu þar til niðurstaða stefnumótunar verður ljós.