Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka Glitnis

Hæstiréttur sýknaði í dag tvo einstaklinga sem voru ákærðir fyrir að hafa misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í netbanka Glitnis með því að hafa nýtt sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti villu í kerfinu, sem leitt hafði til þess að kaup og sölugengi hafði víxlast og þannig aflað sér  ávinnings með færslum á milli gjaldeyrisreikninga sinna.

Þrír karlmenn og ein kona voru upphaflega ákærð vegna málsins og fengu þau öll skilorðsbundinn fangelsisdómi í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Konan var dæmd í 1 mánaðar fangelsi, einn karlinn í 2 mánaða fangelsi, annar í 3 mánaða fangelsi og sá þriðji í 9 mánaða fangelsi. 

Kerfisvillan var til komin venga forritunarmistaka bankastarfsmanna. Fólkið notaði netbanka til að kaupa dollara fyrir evrur og seldi síðan strax aftur fyrir evrur. Kerfisvillan gerði það að verkum að mennirnir fengu í sinn hlut álagsgreiðslur, sem áttu að renna til bankans.   Fjórmenningarnir högnuðust um alls 30 milljónir króna, frá tveimur og hálfri til 24 milljóna króna hver. Þeir endurgreiddu bankanum allt féð og lýstu yfir sakleysi fyrir dómi.

Hæstiréttur segir, að við kaupin hafi mennirnir tveir fengið eins og aðrir viðskiptavinir, sem fengust við gjaldeyriskaup í netbankanum, tilboð Glitnis um tiltekið verð á gjaldeyrinum, sem þeir samþykktu. Ekki væri hægt að telja, að mennirnir hefðu með þessu misnotað einhliða aðgang sinn að netbankanum við gjaldeyrisviðskiptin. Voru þeir því sýknaður af ákæru um umboðssvik, en þeir höfðu ekki verið bornir sökum um fjársvik.

Umboðssvik eru þegar maður misnotar aðstöðu sína til að gera eitthvað sem annar verður bundinn af.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert