Ákvörðun um ákæru tekin í haust

Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum einstaklinga tengdum Baugi er lokið. Að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, saksóknara efnahagsbrota, verður sumarið nýtt til að yfirfara gögnin og taka ákvörðun um framhaldið. Ef til þess kemur að ákært verði, mun ákæra vera gefin út „einhvern tíma“ í haust.

Skattamálið hefur verið kallað þriðji hluti Baugsmálsins, sem lauk á fimmtudag. Ljóst er að mikill þrýstingur er á ríkislögreglustjóra að ákæra ekki í málinu. Ekki síst í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar en þar er dráttur á rannsókn m.a. gagnrýndur. Rannsókn Baugsmálsins í heild hefur tekið nærri sex ár.

Í byrjun marsmánaðar úrskurðaði yfirskattanefnd Baugi í hag í einum af þremur liðum sem félagið skaut til nefndarinnar í kærumáli vegna álagningar opinberra gjalda frá árunum 1998-2002. Niðurstaðan þýddi að ríkisskattstjóri þarf að endurgreiða Baugi 75 milljónir króna.

Einn þáttur í rannsókn efnahagsbrotadeildar hvað varðar meint skattalagabrot var að bíða dóms yfirskattanefndar. Óvíst er hvort úrskurðurinn hafi áhrif á ákvörðun deildarinnar.

Nokkur styr hefur staðið um rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar og skemmst er að minnast þess að í febrúar sl. fékk ríkislögreglustjóri húsleitarheimild til að nálgast gögn vegna málsins hjá ríkisskattstjóra. | andri@mbl.is

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert