Íbúar á Suðurlandi eru enn að vinna úr skjálftanum

Frá blaðamannafundinum í Hveragerði í gær.
Frá blaðamannafundinum í Hveragerði í gær. mbl.is/G. Rúnar

Þrátt fyrir að lífið á Suðurlandi sé smám saman að færast í eðlilegt horf eru eftirköst Suðurlandsskjálftans sem reið yfir 29. maí síðastliðinn enn vel greinanleg. Fjöldi fólks treystir sér enn ekki til að dvelja í húsum sínum þrátt fyrir að þau séu vel íbúðarhæf. Um 22 hús eru óíbúðarhæf í sveitarfélögunum Ölfusi, Árborg og Hveragerði. Eignatjón er gríðarlegt og engin leið að meta það að fullu.

Á blaðamannafundi sem forsvarsmenn sveitarfélaganna og fulltrúar viðbragðasaðila héldu í Hveragerði í gær kom fram að allt verði gert til að veita íbúum á svæðinu alla þá aðstoð og þjónustu sem þörf er á, eins lengi og þörf er á.

Ólafur Örn Haraldsson sem fyrir skemmstu var skipaður verkefnastjóri þjónustmiðstöðvar vegna jarðskjálftans sagði á fundinum að allt starf sem unnið hefði verið í kjölfar skjálftans hefði tekist aðdáunarlega vel. „Einhver einangruð tilvik vitum við um þar sem fólk taldi að sér hefði ekki verið sinnt eða að það hefði ekki fengið þá þjónustu sem það átti von á. Á þessum tilvikum höfum við tekið nú þegar og munum gera áfram.“

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, lagði áherslu á að horfa til framtíðar. „Mikilvægast er að fólk fái tíma og stuðning til að sópa sér saman í sálinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka