„Að mínu mati þjónar það best almannahagsmunum að rannsaka vandlega hvernig farið var með lögreglu- og ákæruvald í þessu máli,“ segir Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, um Baugsmálið í grein í 24stundum í dag.
Lúðvík segir rannsókn á Baugsmálinu vera nauðsynlega. „Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðu Baugsmáli er eðlilegt að spurt sé, hvort ákvarðanir þeirra, sem efndu til sex ára rannsóknar gegn einstaklingum og líklega hefur kostað meira en nokkurt annað sakamál hingað til [...] uppfylli þær faglegu kröfur sem gera verður til slíkra ákvarðana?“
Lúðvík segir í grein sinni að leita þurfi leiða til þess að „endurheimta trúverðugleika réttarríkisins í kjölfar þess álitshnekkis, sem lögregla og ákæruvaldið urðu fyrir, vegna niðurstöðu Hæstaréttar í Baugsmálinu“.