Hollenskur karlmaður á sjötugsaldri, sem grunaður er um að hafa ætlað að flytja allt að 200 kíló af hassi til Íslands í húsbíl með ferjunni Norrænu, var í kvöld fluttur til Reykjavíkur með áætlunarflugvél Flugfélags Íslands og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 20. Flytja átti manninn, sem hefur verið úrskurðaður í mánaðar gæsluvarðhald, í fangelsið á Litla-Hrauni.
Fyrr í dag var hassið, sem fannst í húsbíl mannsins í gær, flutt með flugvél til Reykjavíkur.
Að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðisins, var óskað eftir því í morgun að embættið tæki við rannsókn málsins og þá var gerð gangskör að því að flytja hassið og manninn suður. Þá var búið að úrskurða manninn í gæsluvarðhald til 9. júlí.
Um er að ræða eitt mesta magn af hassi, sem lagt hefur verið hald á hér á landi og er götusöluverðmæti efnisins talið vera yfir 400 milljónir króna. Efnin fundust í húsbíl Hollendingsins við tollskoðun á Seyðisfirði í gær eftir að fíkniefnahundur gaf til kynna að þar væru fíkniefni. Maðurinn var einn á ferð.