Útvegsbændur segja tillögur Hafró mikil vonbrigði

Útvegsbændur í Vestmannaeyjum segja í tilkynningu að tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um hámarksafla á næsta fiskveiðiári mikil vonbrigði fyrir þá sem stunda útgerð en lagt er til að veiðar á þorski verði takmarkaðar enn frekar þrátt fyrir 30% niðurskurð þorskafla á yfirstandandi ári.

„Á almennum félagsfundi í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja sem haldinn var 6. júní sl. var farið yfir tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um hámarksafla á næsta fiskveiðiári.  Ljóst er að tillögur Hafró eru mikil vonbrigði fyrir þá sem stunda útgerð en lagt er til að veiðar á þorski verði takmarkaðar enn frekar þrátt fyrir 30% niðurskurð þorskafla á yfirstandandi ári.

Telja félagsmenn að mikið ósamræmi sé milli tillagnanna og þess góða ástands sem sjómenn og útgerðarmenn hafa upplifað á miðunum í kringum landið og hafa þeir efasemdir um að tillögurnar séu byggðar á nægilega traustum grunni.  Félagið styður tillögur LÍÚ um hámarksafla einstakra tegunda á næsta fiskveiðiári.

Ábyrgar fiskveiðar og skynsamleg nýting fiskistofnanna er engum eins mikilvæg og sjávarútvegsfyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Til þess að tryggja að svo megi verða þurfa stjórnvöld, Hafró og hagsmunaaðilar að leggja aukinn kraft í hafrannsóknir. Í því sambandi minnir félagið á nauðsyn þess að efla samstarf milli Hafró og sjómanna. Þá er að mati félagsmanna nauðsynlegt að fara ofan í kjölinn á núverandi rannsóknaraðferðum við mat á stofnstærð og veiðiþoli einstakra tegunda m.a. með tilliti til þess að þrátt fyrir minni veiði í einstökum tegundum en Hafró lagði til fyrir ári síðan þá leggur stofnunin til enn meiri niðurskurð aflaheimilda.  Framundan er erfiður róður þar sem bæði er nauðsynlegt að byggja upp traust milli Hafró og aðila í sjávarútvegi og einnig að endurskoða aðferðir sem notaðar eru við ákvörðun um nýtingu fiskistofnanna," samkvæmt tilkynningu.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka