eftir Andra Karl
Á milli 150 og 200 kíló af hassi sitja í geymslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir stóran ef ekki stærsta fíkniefnafund Íslandssögunnar. Tollgæslan á Seyðisfirði fann efnin í húsbíl sem kom með Norrænu til landsins á þriðjudag.
Óvenjumikill viðbúnaður var vegna komu ferjunnar og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru ákveðnar grunsemdir um tilraun til innflutnings fíkniefna. Sá grunur var helst til kominn vegna eins farþegans en hann hefur komið við sögu lögregluyfirvalda í Evrópu. Ekki fékkst þó uppgefið hvort hann hefði brotið af sér hér á landi.
Athygli vakti að Norræna kom óvenjusnemma til Seyðisfjarðar á þriðjudagsmorgun eða tæpum þremur klukkustundum á undan áætlun. Hins vegar komust farþegar ekki frá borði fyrr en um hádegið þar sem tollgæslulið var ekki á staðnum þegar ferjan kom að landi. Gætti nokkurrar óánægju meðal farþega vegna þessa. Um tollafgreiðslu sáu í sameiningu Tollgæslan í Reykjavík og lögreglan á Seyðisfirði auk þess sem lögreglan á Akureyri sendi mannskap. Notast var við fíkniefnaleitarhunda og enn á ný sönnuðu þeir gildi sitt.
Í húsbíl mannsins merkti fíkniefnaleitarhundur lykt og var bíllinn því kannaður betur. Afar erfiðlega gekk að finna efnin en þau voru að sögn heimildarmanns Morgunblaðsins gríðarlega vel falin. Eigandi bílsins, hollenskur karlmaður á sjötugsaldri, var handtekinn og sýndi ekki mótþróa. Eftir fyrstu skýrslutöku var hann færður fyrir dómara í Héraðsdómi Austurlands og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. júlí nk. Hann var einn á ferð.
Vegna umfangs málsins var rannsóknin flutt til fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hollendingurinn og hassið voru því flutt til höfuðborgarinnar í gær og bíður maðurinn flutnings á Litla-Hraun.