Þingflokkur Frjálslynda flokksins gagnrýnir harðlega svar það, sem sjávarútvegsráðherra hefur sent mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðana við því áliti nefndarinar, að framkvæmd kvótakerfisins í íslenskum sjávarútvegi brjóti gegn mannréttindasáttmála SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Þingflokkurinn segir að svarið sé staðfesting á því, sem haldið hafi verið fram, að ríkisstjórnarflokkarnir ætli á engan hátt að taka mark á álitinu og halda áfram að brjóta mannréttindi, hvað sem líður áliti mannréttindanefndarinnar. Engar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu séu kynntar fyrir nefndinni og einungis boðað, að efnt verði til allsherjarskoðunar á kerfinu í náinni framtíð, með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur nefndarinnar, eftir því sem unnt sé. Þá segir, að kærendum verði ekki greiddar skaðabætur eins og nefndin krefst í áliti sínu.
„Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ekki taka alvarlega álit frá nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem á að meta hvort mannréttindi séu í heiðri höfð hjá aðildarþjóðunum og hvort íslensk löggjöf samræmist skuldbindingum sem eru í þeim alþjóðlegu samningum sem íslensk stjornvöld og Alþingi hafa samþykkt að undirgangast. Á sama tíma leitar utanríkisráðherra Íslands eftir stuðningi þjóða heims við umsókn Íslendinga um sæti í Öryggisráðinu, þeirri stofnun sem tryggja á að mannréttindi séu haldin í heiminum," segir m.a. í ályktuninni.