Tilboð í Landeyjahöfn undir kostnaðaráætlun

Landeyjasandur. Vestmannaeyjar í baksýn.
Landeyjasandur. Vestmannaeyjar í baksýn.

Tilboð í Landeyjahöfn voru opnuð hjá Siglingastofnun í dag. Tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum og voru þau öll undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 3,1 milljarð króna. Lægsta tilboðið átti Suðurverk hf., 1,87 milljarða króna eða 60,1% af kostnaðaráætlun.

Verkið snýst um gerð tveggja um 700 metra langra hafnargarða Landeyjahafnar, gerð 11,8 km Bakkafjöruvegar  frá Hringvegi að Landeyjahöfn, byggingu 20 metra langrar brúar á Ála, rekstur 120 metra stálþils, gerð vegtengingar frá Bakkafjöruvegi að Bakkaflugvelli og gerð 3,9 km sjóvarnar- og varnargarða í Bakkafjöru.

Gerð varnargarða við Ála og Markarfljót skal lokið 1. nóvember 2008. Gerð brúar á Ála skal lokið 1. maí 2009. Uppmokstri úr hafnarkví skal lokið 1. júlí 2009. Fyrir 1. október 2009 skulu brimvarnargarðar komnir í fulla lengd. Verkinu skal að fullu lokið þann 1. júlí 2010.

Siglingastofnun hefur þegar auglýst smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju á Evrópska efnahagssvæðinu í eiginframkvæmd. Hefur auglýsingin þegar birst þar og verður birt hérlendis um helgina. Tilboð verða opnuð 29. júlí.

Tilboðin sem bárust voru eftirtalin:

  • Klæðning ehf., Reykjavík 2.090.000.000 krónur, 67,3% af kostnaðaráætlun
  • Ístak hf., Reykjavík 2.489.721.965 krónur, 80,2%
  • Ístak hf. frávikstilboð 2.289.721.965 krónur 73,7%
  • Suðurverk hf., Hafnarfirði 1.867.664.916 krónur 60,1%
  • KNH ehf., Ísafirði 2.774.752.100 krónur 89,4%.
  • Kostnaðaráætlun verkkaupa 3.105.259.000 krónur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert