IKEA innkallar Femton kastara

Femton kastari sem IKEA hefur innkallað
Femton kastari sem IKEA hefur innkallað


IKEA biður þá viðskiptavini sem keypt hafa Femton kastara að skila vörunni í IKEA verslunina þar sem þeir munu fá fulla endurgreiðslu.

Sænska Rafmagnsöryggisráðið hefur prófað kastarann og hefur komist að þeirri niðurstöðu að lampinn getur ofhitnað. IKEA hefur ekki fengið neinar tilkynningar eða kvartanir frá viðskiptavinum varðandi ofhitnanir, en hjá IKEA er öryggið alltaf í forgangi og því er Femton kastarinn innkallaður í forvarnarskyni, samkvæmt tilkynningu frá IKEA.

„Femton hefur langan og sveigjanlegan arm svo auðvelt er að beina ljósinu í allar áttir. Prófanir hafa sýnt að frávik í sveigjanleika getur gert það að verkum að hægt er að beina perunni of nálægt yfirborði, t.d. vegg, hillu eða borðplötu en það getur leitt til ofhitnunar. Þetta er ekki ásættanlegt og þess vegna eru gerðar tafarlausar ráðstafanir," að því er segir í tilkynningu.

Femton kastarinn sem rætt er um er framleiddur í Kína og hefur verið í sölu í Evrópu, Asíu og Ástralíu síðan 2004. Hann er merktur með fjögurra stafa stimpli (YYWW), fimm stafa birgðasalanúmeri (17796), IKEA vörumerkinu og landi framleiðanda. Önnur útgáfa Femton kastarans er seld í Norður-Ameríku; sú útgáfa tengist ekki innkölluninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert