Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það er harmað að yfirvöld skyldu hafa takmarkað aðgang fréttamanna að ísbjarnarhræinu á Hrauni á Skaga.
„Blaðamannafélag Íslands harmar að yfirvöld skyldu hafa takmarkað aðgang fréttamanna að ísbjarnarhræinu við Hraun á Skaga í síðustu viku. Einkum átelur félagið að lögreglu skuli hafa verið skipað að loka þjóðvegi til þess að hindra fréttamenn í vinnu sinni eftir að björninn hafði verið veginn. Umhverfisráðherra hefur upplýst að tilgangurinn hafi verið að koma í veg fyrir óheppilegar myndir sem skaðað gætu ímynd landsins.
Blaðamenn eiga ekki einungis lögvarinn rétt heldur ber þeim skylda til að afla frétta og miðla þeim í þágu almennings. Allir tilburðir til þess að takmarka aðgang fjölmiðla að fréttaviðburðum, til dæmis með því að hindra myndatökur, fela í sér tilraunir til ritskoðunar.
Blaðamannafélagið ítrekar að það er ekki í verkahring yfirvalda að stýra því sem er myndað eða sagt. Ritstjórnarvaldið og ábyrgðin er hjá fjölmiðlunum sjálfum."