Þorskkvótinn 130 þúsund tonn

Þorskur
Þorskur mbl.is/Sigurður Mar

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag tekið ákvörðun um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári, 2008-2009.

 Þorskaflinn verður hinn sami og á yfirstandandi fiskveiðiári, eða 130 þúsund tonn. Er það í samræmi við ákvörðun í fyrra sem byggðist á aflareglu sem samþykkt var í ríkisstjórninni þann 6. júlí á síðasta ári.  Er þar gert ráð fyrir að á fiskveiðiárinu 2008/2009  muni leyfilegur þorskafli miðast við 20% afla úr viðmiðunarstofni, en þó þannig að tekið verði tillit til sveiflujöfnunar samkvæmt aflareglu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Leyfilegur heildarafli í þorski verði þó ekki undir 130 þúsund tonnum á því fiskveiðiári.

 Aflamark karfa minnkar um 7 þúsund tonn

Hvað aðrar tegundir áhrærir eru breytingar ekki miklar. Aflamark í ýsu og ufsa lækkar, en þó ekki jafn mikið og Hafrannsóknastofnunin leggur til, í ljósi sterkrar stöðu þessara stofna. Þá er aflamark lækkað í karfa um 7 þúsund tonn.

Um lítils háttar aukningu er að ræða í aflamarki steinbíts, humars  og skötusels, en aflamark all margra tegunda breytist ekki á milli ára. Aflamark í síld er um 20 þúsund tonnum meira en Hafrannsóknastofnunin leggur til, líkt og í fyrra. Staða síldarstofnsins er sterk og útbreiðslusvæði síldarinnar meira en áður. Gert er ráð fyrir að í haust  fari fram frekari mæling á síldarstofninum.

 Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförnum árum veitt aðskilda ráðgjöf um gullkarfa og djúpkarfa og er svo einnig nú. Ekki eru forsendur til þess að úthluta aðskildu heildaraflamarki þessara tegunda að þessu sinni. Hins vegar verður settur á laggirnar starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem fær það hlutverk  að leggja fram tillögur í þessum efnum og verður honum ætlað að skila áliti á næsta ári.

 Aflamark grálúðu óbreytt

Þrátt fyrir tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar um verulega lækkun aflmarks í grálúðu verður það óbreytt. Er skýringin sú að þrjár þjóðir koma að nýtingu grálúðustofnsins, Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar. Ekki hefur náðst samkomulag um grálúðuna á milli þjóðanna og því ljóst að einhliða lækkun grálúðukvótans af okkar hálfu hefði einvörðungu þær afleiðingar að aflaheimildar okkar minnkuðu en aðrar þjóðir gætu aukið sinn hlut, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Stefnt að frumvarpi sem eykur möguleika á geymslu veiðiheimilda

„Framhjá því verður ekki litið að hinar litlu aflaheimildir í þorski munu hafa meiri áhrif á næsta fiskveiðiári en á því yfirstandandi. Þessu veldur meðal annars að geymsla aflamarks í þorski frá síðasta fiskveiðiári kom mönnum til góða á núverandi fiskveiðiári.

Því verður ekki að heilsa á næsta fiskveiðiári.  Geymslurétturinn eykur aðlögunarhæfni í sjávarútvegi og hagkvæmni í veiðunum, ekki síst við núverandi aðstæður. Þess vegna er að því stefnt að leggja fram frumvarp á komandi hausti sem eykur möguleika á geymslu veiðiheimilda á milli ára," að því er segir í tilkynningu frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka