Eftir Steinþór Guðbjartsson
Fjórir starfsmenn, þar af þrír af fjórum framkvæmdastjórum, hafa sagt upp hjá Reykjavík Energy Invest (REI) en þeir starfa áfram hjá fyrirtækinu um sinn þar sem ekki hefur verið gengið frá starfslokum við þá, að sögn Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa og stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon segir að níu starfsmenn vinni hjá REI hérlendis. Hann bendir á að REI sé deild innan OR og uppsagnirnar hafi ekki veruleg áhrif á starfsemina. Verkefnin séu í góðum farvegi auk þess sem vinnan fari að miklu leyti fram hérlendis og sé að sumu leyti unnin af starfsmönnum OR. „Það er tiltölulega auðvelt að koma verkefnum áfram til þeirra,“ segir Kjartan.