Eftir Baldur Arnarson
„Það er stórkostlegt að hafa þessa aðila með sem trúa á þetta verkefni og ég held að það auðveldi REI að fá fleiri aðila að málinu. Það eru fleiri aðilar sem hafa sýnt því áhuga að koma að þessu sem ég get ekki nefnt á þessari stundu. Það hefur verið rætt við bankastofnanir og sjóði,“ segir Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, um aðkomu IFC InfraVentures, nýs 100 milljóna dala fjárfestingarsjóðs, undir stjórn Alþjóðabankans, að frumathugun á hagkvæmni þess að reisa jarðvarmavirkjun í Afríkuríkinu Djíbútí.
Alls leggur sjóðurinn fjórar milljónir Bandaríkjadala til verkefnisins, eða sem svarar 310 milljónum íslenskra króna, og kveða samningar á um að ef tilraunaboranir gefi góða raun og fyrirhuguð 50MW jarðvarmavirkjun verði að veruleika muni styrkurinn breytast í hlutafé, ellegar að sjóðurinn geti fengið féð, 35% af áætluðum heildarkostnaði við athugunina, til baka með ávöxtun.
Spurður um aðdraganda verkefnisins segir Hjörleifur að forsvarsmenn Reykjavik Energy Invest (REI) hafi lengi átt í viðræðum við International Finance Corporation (IFC), deild í Alþjóðabankanum. Nokkurn tíma hafi tekið að leggja lokahönd á samninginn, sem falli að stefnu og áformum REI.
„Þetta er hluti af þeirri vegferð sem menn eru í, að fá aðila til þess að taka þátt í þessum verkefnum og þar með að minnka áhættu REI. Ef illa fer og árangur af borunum verður ekki sá sem menn ætlast til munu þeir afskrifa það sem þeir láta í þetta. Þannig að þetta er áhættufé sem þeir eru að leggja í þetta,“ segir Hjörleifur.