Engum hælisleitenda var veitt staða flóttamanns á síðasta ári. Þremur einstaklingum var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum og
þrettán umsóknum var hafnað og/eða neikvæð ákvörðun Útlendingastofnunar
staðfest af dómsmálaráðuneytinu.Tuttugu og fjórir einstaklingar voru sendir tilbaka á grundvelli svokallaðrar
Dublin reglugerðar af þeim fjörutíu sem sóttu um hæli. Þetta kemur fram á heimasíðu Rauða Kross Íslands.
Sjö einstaklingar drógu hælisumsókn sína til baka eða hurfu af landi brott áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra.
Í
lok árs 2007 voru alls til meðferðar hjá stjórnvöldum mál 31
hælisleitenda sem sótt höfðu um hæli á árunum 2005-2007 en málsmeðferð
hælisumsókna getur tekið langan tíma, allt að nokkrum árum í lengstu
tilvikunum.
„Þó það sé ljóst að í Dublin reglugerðinni sé
ákveðin heimild til að taka ekki umsóknir til efnislegrar meðferðar,
heldur vísa hælisleitendum til þess Evrópulands sem ber ábyrgð á þeim samkvæmt reglugerðinni, telur Rauði krossinn að í sumum tilvikum sé rík
ástæða til að taka umsóknir til efnislegrar meðferðar,“ segir Kristján
Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Rauði krossinn vinnur að málefnum
hælisleitenda í samvinnu við stjórnvöld og í umboði
Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Þá hefur Rauði kross
Íslands lykilhlutverki að gegna við komu flóttamanna sem
íslenska ríkið býður hingað til lands, venjulega í 20 – 30 manna hópum.
Í mörgum löndum hefur Rauði krossinn tekið að sér margvísleg störf sem tengjast flóttamönnum og hælisleitendum, enda standa þeir oft berskjaldaðir við komuna í ókunnugt land.
Á Íslandi hefur einn hælisleitandi fengið stöðu flóttamanns frá árinu 1991. Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, útskýrði á Alþingi í nóvember 2003 hvers vegna svo fáir fá hæli hér á landi miðað við víða annars staðar í Evrópu. „Almennt er einkennandi fyrir þann hóp sem sótt hefur um hæli hér á landi að umsækjendur hafa reynt fyrir sér í öðrum Evrópuríkjum og ýmist ekki beðið þar eftir niðurstöðu eða verið synjað þar um hæli. Þá hefur í flestum tilvikum reynst vera um að ræða einstaklinga sem leita betri lífskjara en völ er á heima fyrir, en ekki fólk sem er á flótta undan ofsóknum eða stríðsátökum í heimaríki sínu, en það er um síðarnefnda hópinn sem þeir alþjóðasamningar sem unnið er eftir fjalla.“
Það er athyglivert að ef tölurnar frá 1. janúar 1998 til 1. nóvember
2004 eru skoðaðar kemur í ljós að af þeim rúmlega 380 sem sótt hafa um
hæli á þeim tíma, hefur einn hælisleitandi fengið stöðu flóttmanns
samkvæmt Flóttamannasamningnum, eða um 0.26% þeirra sem sækja um hæli.
Þetta hlutfall er ívið lægra en gengur og gerist í löndunum í kringum
okkur. Séu þeir ekki teknir með sem hafa verið endursendir á
grundvelli Dyflinarsamningsins eða Norðurlandasamnings hækkar þetta
hlutfall.