Glæfraakstur í Hafnarfirði

Lögreglumaður á vettvangi þrýstir ökufanti ofan í götuna eftir glæfraakstur
Lögreglumaður á vettvangi þrýstir ökufanti ofan í götuna eftir glæfraakstur Jakob Björnsson

Ekið utan í bifreið í Hafnarfirði til að stöðva akstur hennar. Í bílnum voru tvær manneskjur og hlutu þær engin meiðsl. Ökumaðurinn hafði mælst á ofsahraða við Arnarneshæð og hunsað stöðvunarmerki frá lögreglu.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins ók fyrir stundu utan í bifreið til stöðva akstur hennar. Átti atburðurinn sér stað við næst efsta hringtorgið í Áslandshverfi, á Ásabraut.

Vitni á vettvangi sagði að ökumaðurinn hefði verið kvenkyns og farþeginn karlmaður. Eftir að hafa fjarlægt parið úr bílnum hefði lögreglan þrýst þeim niður á götuna og sett fótinn ofan á bak viðkomandi.

Lögregla höfuðborgarsvæðisins sagði að ökutækið hefði mælst á ofsahraða við hefðbundið umferðareftirlit við Arnarnesbrúna. Ökumaðurinn hefði ekki sinnt ítrekuðum stöðvunarmerkjum lögreglu og hefði þá eftirför hafist.

Að lokum tókst að stöðva ökumanninn í Ásahverfinu og voru gangandi vegfarendur á svæðinu í hættu vegna aksturins. Þar sem bíllinn var á leið inn í þéttbýlishverfi og aksturinn glæfralegur hefði lögreglan ekki séð neina aðra leið en að stöðva ökutækið með því aka utan í það á yfirvegaðan hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert