Fundi allsherjarnefndar Alþingis var að ljúka. Á honum kom meðal annars fram að kæra vegna máls Paul Ramses hefur ekki borist dómsmálaráðuneytinu. Komi hún þangað mun hún verða tekin til gaumgæfilegrar skoðunar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður nefndarinnar, sagði nefndina hafa fengið betri upplýsingar um málið frá þeim aðilum sem nefndin kallaði á fund sinn. Á honum voru fulltrúar dómsmálaráðuneytis, Útlendingastofnunar, Amnesty, Rauða krossins og Alþjóðahúss.
Á fundinum var sömuleiðis rætt almennt um stöðu hælisleitanda á Íslandi og löggjöf sem þá varða.
Þá hefði komið fram frá fulltrúum dómsmálaráðuneytis að kæra vegna máls Paul Ramses hefði enn ekki borist ráðuneytinu en lögmaður Paul Ramses, Katrín Theodórsdóttir segir að kæra muni berast í dag eða morgun.
Ágúst segir að ef kæra verði send ráðuneytinu muni hún verða skoðuð gaumgæfilega og þar með verði boltinn hjá þeim. Þá verði málið opið á ný. Fyrst kæran hefur ekki borist þá er boltinn enn hjá lögmanni Paul Ramses.
Margir þeirra gesta sem komu á fundinn töldu að endurskoða þyrfti ákvörðun Útlendingastofnunar en það lægi þó nokkuð ljóst fyrir að málsmeðferðarreglur hefðu ekki verið brotnar. Allur ferill málsins hefði verið með eðlilegum hætti.„Það er svo annað mál hvort að þessi ákvörðun hafi verið rétt vegna sérstakra tengsla mannsins við landið, bæði út frá mannúðarsjónarmiðum og eins vegna þess að þarna var fjölskyldu sundrað,“ segir Ágúst.
Ágúst segir að ef ráðuneytið fái kæru vegna Paul Ramses hafi ráðuneytið þrjá valkosti:
1. Ráðuneytið getur ógilt ákvörðun Útlendingastofnunar á grundvelli þess að reglur hafi verið brotnar.
2. Ráðuneytið getur staðfest ákvörðun stofnunarinnar.
3. Dómsmálaráðuneytið getur snúið við ákvörðun Útlendingastofnunar og kveðið á um nýja ákvörðun. Þá lætur það framkvæma efnislegt mat á stöðu einstaklingsins en það hefur ekki verið gert.
Ágúst Ólafur sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að það væri skoðun sín að dómsmálaráðherra ætti að endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunar og hafa mannúðarsjónarmið í huga. „Ég tel það mikilvægt og sýnist svigrúm fyrir hann að gera það,“ sagði Ágúst.
Ágúst Ólafur sagðist ekki hafa séð ástæðu til þess að nefndin sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna málsins. Einstakir nefndarmenn gætu gert það og hefðu gert það.